BURÐARVIRKI LJÓSSINS


53N

GREINARGERÐ

Hvað gerir bústað íslenska sendiherrans í Þýskalandi ólíkan t.d. bústað íslenska sendiherrans í Japan? Báðir bústaðirnir túlka eiginleika íslenska ríkisins og gildi íslensku sendiherrafjölskyldunnar en þeir byggja báðir á staðbundnum arkitektúr hvað varðar efni, veðurfar, byggingatækni og reglugerðir.

AFSTÖÐUMYND
Ferðataska sendiherrafjölskyldunnar
Það, að íslenska ríkið ákveði að halda samkeppni um sendiherrabústað sinn í Berlín, hlýtur fyrst og fremst að gefa í skyn vilja Íslands til að koma vel fram í Þýskalandi, eitt sterkasta ríkis Evrópubandalagsins. Bústaðurinn þarf því bæði að uppfylla þarfir ríkisvaldsins og fjölskyldunnar sem þar býr. Gildi Íslands og íslensku fjölskyldunnar koma í ljós til þess að að gestir sendiherrans öðlist frekari þekkingu og skilning á íslenskri menningu og lífsháttum.
Fyrir nokkrum árum ferðaðist ljósmyndari til ólíkra landa, þar á meðal til Íslands. Íslenska fjölskyldan kenndi sig við tónlist, hesta, náttúruna og liti. Hann tók eftir því að atferli manna og hegðun stýrðist að miklu leyti af náttúrulegum aðstæðum, vatni og birtuskilyrðum, menn hittust í heitu pottunum, héldu samkomur á björtum sumarkvöldum og lásu góða bók á dimmu vetrarkvöldi. Sendiherrafjölskyldan gæti allt eins kennt sig við þessi sömu gildi og flutt með sér í ferðatöskunni til þess lands sem hún er send.

Sendiherrabústaðurinn ætti því að vissu marki að mótast af innihaldinu, lífsaðstæðum fjölskyldunnar og gildum landsins sem hann stendur fyrir. Það má heldur ekki gleymast að fjölskyldan sest að í öðru landi og verður að taka tillit til staðbundinna hátta. Í raun má túlka bústaðinn sem gjöf íslenska ríkisins til Þýskalands og byggingarlistar þess. Á síðastliðnum misserum hefur heit umræða snúist um nýju Berlín, og sem enn er í gangi; hvaða viðhorf gætu gilt þegar byggingarlistin hefur verið táknræn um tvær sögur Berlínarborgar: annars vegar ímyndina um borg byggða úr steini og hins vegar ímynd stáls og glers. Bústaður íslenska sendiherrans verður að taka afstöðu í þessum umræðum. Efniviður hans er því margþættur.



Íslenski sendiherrabústaðurinn í Berlín
Gesti ber að garði. Í gegnum þétta girðinguna sést til bílanna, hún er gerð úr lóðréttum kortenstálslengjum þannig að aðeins sést inn á lóð sendiherrabústaðarins þegar staðið er beint fyrir framan hana. Sterkt gagnsætt glerhliðið er opnað og á einu andartaki iðar bústaðurinn af lífi. Bílarnir aka inn á hæðina sem liggur beint af götunni og sendiherrann býður gesti sína velkomna. Inngangurinn er auðkenndur með þakglugga sem varpar birtu yfir tvöfalt anddyrið. Flæði bílaumferðarinnar er stöðugt, leigubílarnir halda hringnum áfram en nokkrir fá stæði á veröndinni við hlið sendiherrabílanna. Í aðalanddyrinu, þar sem veggir eru úr gagnsæju gleri, taka menn af sér yfirhafnir og skrifa í gestabókina sem staðsett er við stigann og upplýst af birtunni sem þakgluggi varpar niður. Andrúmsloftið er afslappað og menn geta gengið út á veröndina til þess að njóta blíðunnar og horfa út á garðinn og yfir borgina. Á bak við stigann eru fatahengi, snyrtingar, lítil geymsla ætluð fyrir hluti tengda bílum sendiherrans, lyfta sem gengur í gegnum húsið og innantengdur stigi. Þessar aðstöður eru staðsettar við inngang sendiherrafjölskyldunnar sem snýr beint út á veröndina þar sem bílar þeirra eru geymdir í skjóli fyrir veðrum og vindum.




Á meðan beðið er eftir að fleiri gesti beri að, notar sendiherrann tækifærið til þess að útskýra hugmyndina að baki bústaðarins. Hann byrjar á því að nefna að húsið grundvallast á menningargildum frá báðum löndunum, Íslandi og Þýskalandi. Það er ný byggingargerð þar sem burðarvirki þess byggist á ljósi, birtunni sem hefur svo mikil áhrif á Íslandi - á veturna og á sumrum. En þó náttúrufyrirbæri séu dregin frá Íslandi, er burðarvirki hússins þýskt. Bústaðurinn samanstendur af tveimur hæðum og virðir halla lóðarinnar þannig að grafið er inn í brekkuna til þess að öðlast meira rými og beinan aðgang út í garð fyrir móttökurýmið. Stoðirnar sem tengja hæðirnar eru byggðar á geislum ljóssins, þ.e.a.s. afstaða veggjanna sem hleypa ljósinu niður úr þakinu stjórnast af stöðu sólar á vetrarsólstöðum þann 21.12 kl. 15.00 í Berlín (53ºN) til þess að nýta síðustu geisla hennar sem eru nær láréttir. Hliðar burðarveggjanna sem snúa að opinu, eru klæddir skörðóttu gleri (Prismasolar framleitt í Þýskalandi) sem hjálpar ljósinu að kastast niður vegginn. Opin sjálf laga sig eftir ljósi sumarsólstöðvanna, þ.e. lögun þeirra er dregin upp eftir afstöðu sólar daginn 21.06. kl. 12.00 þegar sól er hæst á lofti og geislar hennar lengstir. Þá myndar hún lítinn skugga en form hans er dregið upp og mótar lögun opsins fyrir framan vegginn sem hleypir ljósinu nákvæmlega niður. Þannig er hámarksnýtingu náð á birtunni sem þrepar sig niður eftir hæðum hússins, jöfn birta breiðist út um allt burðarvirkið. Opin gera það að verkum að hægt er að horfa lóðrétt í gegnum hæðirnar, allt frá einkarými sendiherrafjölskyldunnar á efri hæð og niður í kyrrar laugarnar á hæðinni sem liggur út í garðinn. Þessar ljósa-stoðir þjóna líka táknrænu hlutverki, þær segja til um ferli bústaðarins, hvernig skipulagi hans er háttað.

Burðarvirkið er úr stáli með steinsteyptum einingum. Útveggir þess og útiloft eru klædd léttu, ljósu graníti sem var áður algeng steintegund í byggingum Berlínarborgar. Um er að ræða 5 mm. þykkt steinlag, styrkt með aluminiumneti með bíflugnakúpumynstur. Innveggir burðarvirkisins eru klæddir írókó-viði, ræktuðum á sérstökum afmörkuðum svæðum. Innveggir, gólf og loft vistarveranna, eins og í íbúðunum og hinum ólíku stofum, eru klædd írókó-viði en að utan eru þær klæddar kortenstáli, m.ö.o. spilað er með litbrigði og eiginleika byggingarefnanna sem minna á íslenskt umhverfi. Allir gluggar eru úr styrktu gleri, möttuðu og gagnsæju eftir þörfum á sérrýmum. Öll byggingarefnin eru staðbundin svo og, fylgja hlutföll herbergja og stærð lóðar þýskum löggjöfum.

Jæja, nú hafa allir gestirnir mætt í veisluna. Sendiherrann býður þeim að ganga niður stigann þar sem þeim verður boðið upp á veitingar. Strax frá neðri stigapallinum, sem lýstur er með ofan-ljósinu úr burðarvirkinu, fá gestirnir tilfinningu fyrir húsinu og skynja hvernig garðurinn/náttúran tengist rýminu - heitur pottur, grunn laug, sundlaug, blóm, gras, tré. Hvert skal halda? - möguleikarnir fara eftir umfangi veislunnar. Almennar snyrtingar, snyrting fyrir fatlaða og lyfta eru hinum meginn við stigann. Ef haldið er áfram þá leið auðkennir annað ofan-ljós inngang inn í búningsklefa fyrir heita pottinn, búningsklefa sem afmarkaðir eru með möttuðu gleri. Sendiherrann getur boðið gestum sínum afslöppun í heita pottinum, 'rétt eins og heima', þar sem öll samskipti fara fram án fordóma (allir koma fram á sama hátt óháð kyni, lit eða starfstétt). Eftir örvandi slökun í heitu vatninu og hlýrri birtunni er aftur skipt um aðstæður - eins og í ævintýrabókunum, Lísu í Undralandi. Gengið er til borðsstofu, eða annarrar samkomu í sumarstofunni eða vetrarstofunni.

Samskonar ljósgjafar lýsa upp sumarstofuna sem ávallt er björt en þeir gefa vetrarstofunni mýkri birtu, en sú stofa er tileinkuð eldinum með arni beint undir ofan-ljósi burðarvirkisins og kertaljósum. Sömuleiðis er ofan-lýsing frá stoðum burðarvirkisins yfir brúnni sem liggur að bókastofu sendiherrans en grunn laug sveipar sig um hana að hluta til. Algjör kyrrð hvílir yfir þessum stað tileinkaður bókmenntunum, vinnuherbergi s
endiherrans og lítill fundarstaður. Þegar sendiherrann þarfnast hvíldar eða stundar til íhugunar getur hann notið nálægðarinnar við nátttúruna, hlýrra geisla vetrarsólarinnar eða hlustað á létta rigningardropana detta á þakið, þar sem suður-austur hluti bókastofunnar er gerður úr gleri og hægt er að ganga beint út í garð.

Veitingar eru nú bornar fram með blæ helgiathafnar, í þann mund sem þær koma út úr eldhúsinu fara þær í gegnum ofan-lýsingu burðarvirkisins. Þegar staðið er upp frá borðum ganga menn til vetrarstofunnar eða sumarstofunnar, spjalla saman við stilltar laugarnar eða ganga út í garð til að njóta gróðursins.
Að móttöku lokinni og sendiherrann hefur kvatt gesti sína, fer hann upp stigann sem tengist efri hæð hússins þar sem séríbúðunum er komið fyrir. Þetta kvöld hefur hann boðið einum gestanna næturgistingu svo þeir fylgjast að. Gestaherbergið er nefnilega í "sömu götu" og sendiherraíbúðin og íbúð þjónustunnar, eitthvað sem er lýsandi fyrir það jafnrétti og lýðræði sem Íslendingar vilja láta kenna við sig.

Stiginn sem gengur upp í sjálfstæðar íbúðirnar, leiðir íbúana að útsýnisstað til suð-austurs þar sem þeir horfa út á garðinn og yfir Berlín. Þar, eins og í götu, skiptast leiðir - í verandir og íbúðir sem allar snúa í mismunandi áttir. Heimili sendiherrans hefur tvo innganga, aðalinngang við stigann og annan tengdan eldhúsinu við lyftuna. Báðir inngangarnir eru auðkenndir með ofan-ljósum úr burðarvirkinu en birtan sem af þeim leiðir inn í íbúðunum verður að litlum veröndum. Náttúruleg loftun er í öllu húsinu þó loftkælingakerfi sé líka til staðar og miðstöðvarkynding. Einnig hefur vatnið áhrif á hitastigið inni, hitar það á veturna og kælir á sumrin. Vistvænir eiginleikar eru hafðir að hagsmunum.
Burðarvirki og stoðir hússins eru traustar en um leið koma þær til móts við ólíkar aðstæður, hver sendiherra er jú aðeins tímabundið í Berlín og aðrir taka við. Af grunnteikningu íbúðahæðarinnar má sjá að hægt er að bæta við herbergi og stækka fjölskylduherbergið eftir því hvað ferðataska fjölskyldunnar hefur að geyma.
Á þennan hátt getur frásögn sendiherrans hafist á góðu kvöldi um þætti íslenskrar menningar, tengda heita vatninu, náttúrunni, ólíkum eiginleikum birtunnar og, um hvernig hún tekur virkann þátt í þeim samræðum sem hún mætir í öðru landi.

HÆD AÐKOMU FRÁ GÖTU. 0.00 m.

HÆÐ GARÐSINS. -4.00m.

HÆÐ ÍBÚÐA. +4.00m.